Um tveimur milljónum Japana hefur verið ráðlagt að leita skjóls vegna yfirvofandi fellibyljar sem ber nafnið Nanmadol. Veðurstofa Japans gaf út „sérstaka“ rýmingarviðvörun vegna stormsins sem er næst hæsta viðvörunarstigið þar í landi.
Óveðrið mun ganga yfir Kagoshima-svæðið sem er í suðurhluta Japans. Veðurstofan flokkaði fellibylinn sem „ofsafenginn“.
Gert er ráð fyrir því að stormurinn gangi yfir Kagoshima að morgni sunnudags og færist svo í norður í átt að meginlandi Japans.
Forstöðumaður veðurstofu Japans, Ryuta Kurora, var ómyrkur í máli þegar hann ræddi við fréttamenn:
„Það er hætta á fordæmalausum hviðum, háum öldum og metvatnsfalli. Ýtrustu varúðar skal gætt, þetta er stórhættulegur fellibylur,“ er haft eftir Kurora á AFP-fréttaveitunni.
Typhoon Nanmadol is approaching Kyushu, JMA has issued a special alert to Kagoshima. At present, it seems that the typhoon center may sweep across the western part of Kyushu, which has a large population. Historically, Typhoon Zhuozaki and Louise hit the local area hard in 1945. pic.twitter.com/nyZfmyAt4w
— Jim yang (@yangyubin1998) September 17, 2022
Kurora segir líkur á því að hviðurnar geti rifið niður heilu húsin. Vegna þess hefur íbúum á svæðinu verið ráðlagt að yfirgefa svæðið og leita skjóls í sterkbyggðum byggingum. Ráðleggingarnar eru samt sem áður valkvæðar og reynslan sýnir að það sé erfitt fyrir yfirvöld að sannfæra fólk um að yfirgefa heimili sín.
Kurora biðlaði til almennings að virða þessi tilmæli yfirvalda á blaðamannafundi í gær:
„Færið ykkur inn í sterkbyggð húsnæði áður en bylurinn ríður yfir og haldið ykkur fjarri gluggum.“