Lögreglan handtók 87 manns í Belgrad, höfuðborg Serbíu, í gær í tengslum við EuroPride-göngu hinsegin fólks.
Gangan fór fram þrátt fyrir að ríkisstjórn landsins hafði bannað hana.
„87 manns voru handteknir. Ellefu þeirra voru kærðir,“ sagði innanríkisráðherrann Aleksandar Vulin við sjónvarpsstöðina Pink.
Innanríkisráðuneytið sagðist hafa bannað gönguna af öryggisástæðum eftir að hægri öfgahópar hótuðu að efna til mótmæla á sama tíma.
Þrátt fyrir bannið tókst þúsundum manna að ganga nokkur hundruð metra í gegnum miðborg Belgrad en leiðin var mun styttri en upphaflega var áætlað.
Serbneskir fjölmiðlar sögðu að einhverjar skærur hafi orðið í kringum gönguna og að andstæðingar hennar hafi kastað blysum að lögreglunni.