Algjört rafmagnsleysi í Púerto Ríkó

Fellibylurinn Fíóna.
Fellibylurinn Fíóna. AFP

Rafmagnslaust er á allri eyjunni Púertó Ríkó en fellibylurinn Fíóna geisar nú á eyjunni. Hætta er á flóðum og aurskriðum vegna fellibyljarins.

CNN greinir frá.

„Púertó Ríkó er 100% án rafmagns,“ segir á vefsíðunni PowerOutage.us.

Ríkisstjórinn Pedro Pierluisi staðfesti rafmagnsleysið í tísti og sagði unnið að því að koma rafmagninu aftur á.

Raforkukerfið eyðilagðist 2017

Raforkukerfi Púerto Ríkó lagðist í rúst fyrir fimm árum síðan þegar fellibylurinn María geisaði í september 2017. Þá voru margir íbúar eyjunnar án rafmagns í marga mánuði.

Embættismenn hafa lagt áherslu á að áhrifin verði ekki þau sömu og síðast. „Þetta er ekki María, þessi fellibylur verður ekki María,“ sagði Amber Gomez, yfirmaður almannaöryggis og hættustjórnunar hjá LUMA Energy, sem rekur raforkukerfi Púertó Ríkó, skömmu áður en ljósin slökknuðu.

Áhrifa stormsins hefur þegar orðið vart: Að minnsta kosti eitt dauðsfall hefur verið tilkynnt í Basse-Terre á frönsku yfirráðasvæði Gvadelúpeyja, að sögn varaforseta umhverfisstofnunar svæðisins, sem sagði að höfuðborgin hefði verið eyðilögð vegna flóða. Og í Púertó Ríkó eru skyndiflóð þegar hafin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert