Joe Biden Bandaríkjaforseti er kominn til London þar sem hann mun votta Elísabetu Bretadrottningu virðingu sína í Westminster Hall.
Biden verður síðan á meðal gesta í móttöku Karls konungs í Buckinghamhöll í kvöld, ásamt m.a. Naruhito Japanskeisara og íslensku forsetahjónunum.
Þúsundir manna hafa beðið í löngum biðröðum eftir því að fá að votta drottningunni virðingu sína, en útförin verður á morgun.
Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, hefur þegar séð kistu drottningarinnar í Westminster Hall, auk þess sem Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, var viðstödd athöfn í Buckinghamhöll í gær.