Franski klifrarinn Alain Robert, betur þekktur sem köngulóarmaðurinn, fagnaði sextugsafmælinu sínu með því að klifra upp 48 hæða skýjakljúf í París án öryggisbúnaðar.
Robert klifraði upp bygginguna Tour TotalEnergies í Défense-hverfinu.
„Mig langar að senda út þau skilaboð til almennings að það að verða sextugur er ekki neitt. Maður getur enn stundað íþróttir, verið á ferðinni og gert frábæra hluti,“ sagði hann við Reuters-fréttastofuna.
Eftir að hafa komist á topp byggingarinnar var hann handtekinn, að sögn BBC.
Robert hefur margsinnið klifrað upp þessa sömu byggingu. Í þetta sinn var hann um 60 mínútur að komast á toppinn, að sögn fréttasíðunnar Defense 92.
„Ég lofaði sjálfum mér fyrir þó nokkrum árum síðan að þegar ég yrði sextugur myndi ég klifra þennan turn aftur vegna þess að fyrir mér táknar talan 60 eftirlaunaaldurinn í Frakklandi og mér fannst sniðugt að gera þetta,“ sagði hann.
Einnig vildi hann með klifrinu vekja athygli á hlýnun jarðar.