Loka fyrir rafmagn í Suður-Afríku

Sólarplötur í bænum Orania í Suður-Afríku.
Sólarplötur í bænum Orania í Suður-Afríku. AFP

Víða hefur þurft að loka fyrir rafmagn í Suður-Afríku, iðnvæddasta hagkerfi Afríku, og stefnir í frekara straumrof á næstu dögum. Eru íbúar landsins hvattir til að fara sparlega með rafmagn.

Ástæðan er sögð vera innviðir landsins, lélegt viðhald á þeim sem og aldur.

Andre de Ruyter, framkvæmdastjóri rafveitu landsins, Eskom, tilkynnti um fyrirhugað straumrof í komandi viku og kallaði meðal annars eftir því að fyrirtæki myndu slökkva á ljósum á nóttunni og sundlaugar á dælum sínum og hiturum á háannatímum.

„Ef allir leggjast á eitt getum við ráðið við þetta,“ sagði De Ruyter. Bætti hann við að það að byggja upp almennilegan forða af rafmagni myndi taka sinn tíma.

Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku.
Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku. AFP

Forsetinn á leið heim

Talsmaður Cyril Ramaphosa, forseta Suður-Afríku, sagði í viðtali við fréttastofu AFP að forsetinn, sem nú er staddur í Lundúnum, kæmi aftur til landsins strax að lokinni jarðarför Elísabetar II Bretlandsdrottningar, til þess að fást við rafmagnsvandann.

Forsetinn mun af þeim sökum sleppa því að mæta á næsta leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í næstu viku í New York.

Á átta punkta straumrofs-skala landsins, er staðan nú í krítískum sex punktum, sem þýðir að heimili og fyrirtæki geta reiknað með því að missa rafmagnið þó nokkrum sinnum yfir daginn í nokkrar klukkustundir í senn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert