Þúsundir manna leituðu skjóls í neyðarskýlum í suðvesturhluta Japans í morgun vegna fellibylsins Nanmadol sem er á leiðinni yfir landið.
Japanska veðurstofan gaf út „sérstaka viðvörun“ fyrir borgirnar Kagoshima og Miyazaki í Kyushu-héraði. Slík viðvörun er aðeins gefin út þegar spáð er veðri sem sést aðeins einu sinni á áratugafresti.
Mikið rok og rigning gekk yfir suðurhluta Japans í morgun. Rafmagn er þegar farið af næstum 98 þúsund heimilum í borgunum Kagoshima, Kumamoto, Nagasaki og Miyazaki.
Ríkisfjölmiðillinn NHK sagði að yfir fjórar milljónir manna víðsvegar um Kyushu hafi verið hvattar til að yfirgefa heimili sín og leita í öryggt skjól vegna fellibylsins.
Í morgun höfðu yfir 15 þúsund manns komið sér fyrir í neyðarskýlum í Kagoshima og Miyazaki.
Aflýst hefur verið ferðum með lestum, flugvélum og ferjum þangað til óveðrið gengur yfir.
Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, hvatti fólk á Twitter til að halda sig frá hættulegum stöðum og yfirgefa heimili sín ef það telur að hætta sé fyrir hendi.
„Það verður hættulegt að fara í burtu að nóttu til. Endilega leitið skjóls á meðan það er enn bjart úti,“ sagði hann.