Joe Biden Bandaríkjaforseti ítrekar fyrri yfirlýsingu sína um að Bandaríkjamenn muni koma Taívan til varnar slái í brýnu milli eyjarinnar og Kína en Kínverjar hafa löngum haft horn í síðu nágranna sinna á Taívan og neitað að viðurkenna sjálfstæði þeirra.
„Já, ef til slíkrar fordæmalausrar árásar kæmi,“ svaraði Biden fréttamanni CBS-sjónvarpsstöðvarinnar þar vestra, en spurt var í þættinum 60 Minutes í gær hvort bandarískir hermenn verðu Taívan ef til kæmi. Í kjölfar yfirlýsingar forsetans neyddist Hvíta húsið til að gefa út yfirlýsingu og árétta að sú opinbera stefna Bandaríkjanna að grípa ekki til vopna á Taívan stæði óhögguð.
Frá stjórnvöldum í Peking bárust þegar þau boð að þau fordæmdu yfirlýsingu Bandaríkjaforseta og „mótmæltu harðlega“. Þá greindi bandaríska utanríkisráðuneytið frá því að það hefði gert „alvarlegar athugasemdir“ við orð forseta.
Tvíeðli bandarískra stjórnvalda í málefnum Taívans hefur löngum verið umtalað, þau styðja stefnuna „Eitt Kína“ sem samband þeirra við Kínastjórn byggir á en selja Taívönum samtímis vopn og verjur til að reka hvers kyns innrásarheri af höndum sér þar sem raunar aðeins einn her kæmi helst til greina – sá kínverski.
Ummæli Bidens í gær eru þau beinskeyttustu varðandi hernaðarleg afskipti Bandaríkjanna síðan hann tók embætti og ganga í berhögg við opinbera stefnu landsins gagnvart Taívan. Tók hann einnig fram í viðtalinu að Bandaríkin hvettu með engu móti til sjálfstæðis Taívans.
„Stefnan um eitt Kína stendur og Taívan tekur sínar eigin ákvarðanir um sjálfstæði. Við hvetjum engan veginn til þess að Taívan gerist sjálfstætt – það er þess eigin ákvörðun,“ sagði forseti.