Fiona skall á Dóminíska lýðveldinu

Tveir menn virða fyrir sér þrútið loft og þungan sjó …
Tveir menn virða fyrir sér þrútið loft og þungan sjó á ströndinni í Nagua í Dóminíska lýðveldinu í morgun. AFP/Erika Santelices

Fellibylurinn Fiona gerði strandhögg í Dóminíska lýðveldinu í morgun eftir að hafa valdið usla, rafmagnsleysi og tjóni í Puerto Rico, eftir því sem AFP-fréttastofan greinir frá.

Vindhraði Fionu var 144 kílómetrar miðað við klukkustund þegar hún kom að ströndum lýðveldisins, frá því greinir bandaríska fellibyljamiðstöðin NHC á Twitter. „Reikna má með lífshættulegum flóðum í austurhluta Dóminíska lýðveldisins,“ skrifar starfsfólk NHC einnig.

Luis Abinader, forseti eyríkisins, boðaði vinnustöðvun í dag auk þess sem rauðar viðvaranir voru gefnar út í 13 af 32 héruðum, einkum um norðan- og austanverða eyjuna. Gera spár ráð fyrir að Fiona sæki í sig veðrið og verði að svæsnum fellibyl (e. major hurricane) áður en hún heldur út á opið Atlantshafið

Enn er allt á tjá og tundri í Puerto Rico þar sem íbúar hafa verið beðnir um að halda sig sem mest heima við eða leita að minnsta kosti skjóls séu þeir staddir að heiman. Íbúar eyjarinnar hafa ekki átt sjö dagana sæla þegar náttúra og veðurfar eru annars vegar en fellibylirnir Irma og Maria stórskemmdu rafmagnsdreifikerfi þar árið 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert