Kennari lést í haldi lögreglu

Íranskir Kúrdar brenna slæðu í kúrdíska bænum Sulaimaniya í dag …
Íranskir Kúrdar brenna slæðu í kúrdíska bænum Sulaimaniya í dag og bera myndir af Möhsu Amini sem lést í kjölfar handtöku í síðustu viku. AFP/Shwan Mohammed

Þriðja daginn í röð geisa mótmæli víða um Íran eftir að Mahsa Amini, 22 ára gömul kúrdísk kona, lést í kjölfar handtöku sem framkvæmd var fyrir brot hennar á ströngum reglum Írana um notkun hijab-slæðu.

Amini starfaði sem kennari og var í heimsókn í írönsku höfuðborginni Teheran ásamt fjölskyldu sinni á þriðjudaginn í síðustu viku þegar hún var handtekin. Tjáði lögreglan fjölskyldunni að Amini yrði frjáls ferða sinna eftir að hún hefði gengist undir „endurmenntunaraðgerð“ en þá aðgerð lifði hún ekki af.

Var Amini flutt á sjúkrahús í dauðadái þar sem hún lést á föstudag en samkvæmt skýrslum lögreglu var dánarorsökin hjartaáfall.

Þúsund mættu í útförina

Hafa mótmælin geisað víða, meðal annars í Teheran og í þorpunum Divandarreh í Kúrdistan og kúrdísku höfuðborginni Sanandaj. Hafa kúrdísku réttindasamtökin Hengaw birt myndskeið á Twitter þar sem sjá má mannfjölda kasta grjóti að óeirðalögreglu auk þess sem kaupmenn í Kúrdistan hafa margir hverjir lýst yfir verkfalli í kjölfar atburðarins.

Hossein Rahimi, lögreglustjóri í Teheran, heldur því fram að ekkert hafi hent Amini í haldi lögreglu sem hafi gert allt sem í hennar valdi stóð til að halda henni með lífsmarki. Fór útför hennar fram á laugardaginn í heimabæ hennar, Saqqez í Vestur-Kúrdistan, þar sem eitt þúsund manns mættu til að votta henni virðingu sína þrátt fyrir tilraunir yfirvalda til að takmarka fjöldann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka