Norska Stórþingið situr nú á neyðarfundi um orkumál í landinu þar sem rafmagn er um þessar mundir svo dýru verði keypt að hvorki fyrirtæki né almenningur sjá til sólar fyrir reikningum raforkumiðlara. Kemur þingið sérstaklega saman til fundarins nú, en fátítt er að Stórþingið láti mál raska ró sinni svo, að það komi saman eftir sumarfrí fyrr en í byrjun október.
Terje Lien Aasland, olíu- og orkumálaráðherra, biðlaði til þingmanna á morgunverðarfundi með fjölmiðlum fyrir neyðarfundinn að grípa ekki til neinna þeirra aðgerða sem verða mættu til enn meiri vaxtahækkana en lántakendur hafa ekki átt sjö dagana sæla eftir vaxtahækkanir norska seðlabankans, síðast um 0,5 prósentustig 17. ágúst og þá í 1,75 prósent.
„Til skemmri tíma litið leggjum við áherslu á aðgerðir sem halda hlífiskildi yfir heimilunum og draga úr harðæri fyrirtækja,“ sagði ráðherra á fundinum en hann mun sjálfur stíga í ræðustól þingsins klukkan 12 á hádegi, 10 á Íslandi, og gera grein fyrir stöðu mála.
Að sögn Dagbladet er stjórnarandstaðan tilbúin með 80 tillögur um úrbætur í raforkumálum en ríkisstjórnin mun ekki leggja neitt fram. Það staðfesti Aasland á fundinum í morgun og kvað stjórnina leggja fram fullbúna aðgerðaáætlun á þinginu 30. september.
„Ríkisstjórnin mun til að byrja með leggja fram tillögu um að raforkuverð verði fest. Til lengri tíma leggjum við til aukna raforkuframleiðslu, meiri flutningsgetu orkunetsins og sparnaðarlausnir í orkunotkun,“ sagði ráðherra.
Norsk stjórnvöld hafa sætt gríðarlegum þrýstingi almennings og fyrirtækja vegna svimandi rafmagnsreikninga og standa nú yfir mótmæli við þinghúsið sem hin svokallaða Valkvæða orkunefnd (n. Alternative energikommisjonen) stendur fyrir en að henni stendur fyrrverandi forystufólk úr Verkamannaflokknum og LO, stærstu launþegasamtökum landsins.
Orkumálaráðherra tekur stjórnarandstöðunni allan vara á að greiða úrræðum sem auka opinber útgjöld atkvæði sitt. „Það er hin heiftúðuga árás Rússa á Úkraínu og orkustríðið við Evrópu sem veldur orkuskortinum,“ sagði hann og bætti því við að ætlun Pútíns Rússlandsforseta væri að setja evrópskan efnahag í uppnám og valda sundrungu og óvissu.
„Mörg lönd boða nú þegar rafmagnsskömmtun í vetur,“ sagði hann enn fremur og tók skýrt fram að sú yrði líkast til ekki raunin í Noregi. „Tíminn til að taka meira fé úr olíusjóðnum er liðinn. Slík ráðstöfun mun ekki gera annað en að hækka vexti og gera ástandið enn óbærilegra heimilunum, ekki síst hvað ungt fólk áhrærir sem er að koma undir sig fótunum,“ sagði Aasland.
Er hann á fullkomlega öndverðum meiði við Sylvi Listhaug og Framfaraflokkinn sem í dag mun leggja fram tillögu um hámarksraforkuverð til neytenda, 0,5 krónur, um 6,80 íslenskar krónur, á kílóvattstund. Allt umfram það muni ríkið taka á sig um stundarsakir.
„Ef hámarksverð væri lausn hefðum við gripið til hennar fyrir langa löngu,“ sagði Aasland og vill meina að slíkt inngrip stjórnvalda geri ekki annað en að auka orkuskortinn og tefja nauðsynlegar fjárfestingar.
„Ég vona að við náum að koma niður á sameiginlegan umræðugrundvöll. [...] Haustið verður þungbært og krefjandi. Örugg efnahagsstjórn er nauðsynleg til að hindra fleiri og meiri vaxtahækkanir,“ sagði Aasland á morgunverðarfundinum.