Skiptu á „Escobar Mið-Austurlanda“ og verkfræðingi

Bashar Noorzai, „Pablo Escobar Mið-Austurlanda“, ávarpar blaðamannafund á Intercontinental-hótelinu í …
Bashar Noorzai, „Pablo Escobar Mið-Austurlanda“, ávarpar blaðamannafund á Intercontinental-hótelinu í Kabúl í morgun. AFP/Wakil Kohsar

Talibanar hafa sleppt bandaríska verkfræðingnum Mark Frerichs úr haldi, þar sem hann hefur setið síðan þeir tóku hann höndum í Afganistan árið 2020, í skiptum fyrir Bashir Noorzai, stórtækan heróínsmyglara sem kallaður hefur verið „Pablo Escobar Mið-Austurlanda“.

Afhentu talibanar verkfræðinginn á flugvellinum í Kabúl í morgun og tóku á móti við Escobar Mið-Austurlanda sem verið hefur í haldi Bandaríkjamanna allar götur síðan 2005 þegar hann var handtekinn fyrir smygl á 50 milljóna dala virði af heróíni til Bandaríkjanna, jafnvirði tæplega sjö milljarða íslenskra króna. Noorzai var á sínum tíma talinn hafa stjórnað um helmingi alls heróínútflutnings frá Afganistan, stórum hluta heimsframleiðslu heróíns.

Kosningaloforð Bidens

Hlaut Noorzai lífstíðardóm í Bandaríkjunum 30. apríl 2009 og hóf afplánun hans í Guantanamo-fangelsinu þar sem hann sat þar til nú um helgina. Noorzai á sér langa sögu og mun hafa notað tekjur af ópíumsölu til að þjálfa upp hópa Mujahideen-hermanna til að berjast við Sovétmenn í kjölfar innrásar þeirra í Afganistan í desember 1979 og stríðinu sem henni fylgdi og stóð í áratug. Varð hann á þessum tíma náinn vinur stofnanda talibanahreyfingarinnar, mulla Omars.

Frelsun Frerichs, sem stendur á sextugu, var raunar eitt kosningaloforða Bidens Bandaríkjaforseta en talibanar rændu verkfræðingnum árið áður en þeir brutust til valda í Afganistan á ný í fyrra. „Í dag var Mark Frerichs afhentur Bandaríkjamönnum og haji Bashir afhentur okkur á flugvellinum í Kabúl,“ segir Amir Khan Muttaqi, utanríkisráðherra talibana, við fjölmiðla.

Noorzai, sem talibanar tóku á móti með mikilli viðhöfn og blómahafi, talaði á blaðamannafundi í morgun og sagði þar að skiptin á þeim Frerichs kæmu á friði milli Bandaríkjanna og Afganistans.

CBS46

CNN

New York Times (systir Frerichs skrifar, ágúst 2020)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert