Vindhraði hefur farið upp í 234 km/klst

Aurskriður hafa fallið og einnig er búist við flóðum vegna …
Aurskriður hafa fallið og einnig er búist við flóðum vegna veðurofsans. AFP/Yuichi Yamazaki

Níu milljón milljón manns hefur verið sagt að yfirgefa heimili sín í Japan á meðan Nanmadol, einn öflugasti fellibylur sem sést hefur á þessari öld, gengur yfir.

Vindhraðinn hefur farið upp í 234 kílómetra á klukkustund, eða sem jafngildir 65 metrum á sekúndu, þar sem hann hefur verið mestur og úrkoma á sama tíma mælst um 400 millimetra á sólarhring, að fram kemur í frétt BBC.

Fellibylurinn kom að landi á Kyushu, syðstu eyjunni í Japanska eyjaklasanum, á sunnudagsmorgun og mun líklega ganga yfir Honschu, stærstu eyjuna í klasanum, á næstu dögum.

Nanmadol hefur þegar orðið tveimur að bana og um 90 hafa slasast. Tugþúsundir höfðust við í neyðarskýlum í nótt og um 350 þúsund heimili eru án rafmagns.

Milljónum hefur verið ráðlagt að koma sér fyrir í neyðarskýlum.
Milljónum hefur verið ráðlagt að koma sér fyrir í neyðarskýlum. AFP/Yuichi Yamazaki

Hæsta viðbúnaðarstig á nokkrum svæðum 

Mikil röskun hefur orðið á samgöngum, en fjölda lestarferða, ferjusiglinga og flugferða hefur verið aflýst. Þá hefur starfsemi fjölda fyrirtækja og verslana einnig raskast vegna veðurofsans. Gert er ráð fyrir miklum flóðum og aurskriðum og hefur sandpokum verið hlaðið upp víða til að koma í veg fyrir eignaspjöll.

Viðbúnaðarstigi 5 eða hæsta viðbúnaðarstigi vegna náttúruhamfara hefur verið lýst yfir á svæðunum Kakoshima, Miyazaki, Oita og Yamaguchi, og nær til um 500 þúsund manns.

Viðbúnaðarstigi 4 hefur verið lýst yfir svæðunum Kyushu, Shikoku og Chugoku, en líkt og áður sagði hefur samtals níu milljón manns verið gert að yfirgefa heimili sín vegna fellibyljarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert