Ákærð fyrir 240 milljóna dala svik í faraldrinum

Christopher Wray, forstjóri FBI.
Christopher Wray, forstjóri FBI. AFP

Fjörutíu og sjö manns í Minnesota-ríki í Bandaríkjunum hafa verið ákærðir í tengslum við fjársvik sem snúa að fjárhagsaðstoð til barna vegna kórónuveirufaraldursins.

Hinir ákærðu eru sakaðir um að hafa stolið almannafé upp á 240 milljónir bandaríkjadala, en það jafngildir rúmum 33,8 milljörðum íslenskra króna.

„Ákæran er vegna svívirðilegra áforma um að stela almannafé sem ætlað var til hjálpar börnum í neyð, en um er að ræða stærsta Covid-neyðarpakka hingað til,“ segir Christopher Wray, forstjóri bandarísku alríkislögreglunnar, FBI.

Fulltrúar dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna segja að umræddir einstaklingar hafi komið höndum yfir tugi milljóna dala sem áttu að greiðast til samtaka sem aðstoða við að fæða börn í neyð.

Falsaðir reikningar um kaup á máltíðum handa börnum

Fram kemur í umfjöllun fréttastofu AFP að sakborningarnir hafi notað upphæðirnar í eigin þágu, t.d. í kaup á lúxusbifreiðum, utanlandsferðir og í fjárfestingar á íbúðarhúsnæði.

Aimee Bock, stofnandi og framkvæmdastjóri góðgerðarsamtakanna Feeding Our Future, er ein af sakborningunum. Samtök hennar styrkja Federal Child Nutrition Porgram, samtökin sem var stolið frá.

Á vefsíðum sem opnaðar voru á vegum Feeding Our Future stóð að samtökin framleiddu máltíðir handa þúsund börnum á dag.

Falsaðir reikningar og skýrslur voru birtar um máltíðir þar sem notuð voru tilbúin nöfn barna.

Samkvæmt dómsmálaráðuneytinu opnaði Feeding Our Future fleiri en 250 vefsíður í Minnesota-ríki á tímum faraldursins. Sakborningarnir eiga yfir höfði sér fjölda ákæra, þar á meðal fyrir mútur, peningaþvætti og fjársvik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert