Foreldrar Madeleine McCann tapa fyrir MDE

Madeleine McCann hvarf 3. maí 2007.
Madeleine McCann hvarf 3. maí 2007. AFP

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að foreldrar Madeleine McCann hafi fengið sanngjarna málsmeðferð í meiðyrðamáli sem þau höfðuðu gegn portúgölskum rannsóknarlögreglumanni sem fór fyrir rannsókninni á hvarfi dóttur þeirra. 

Fimmtán ár eru liðin frá því að Madeleine hvarf í fjölskyldufríi í Portúgal. Málið er enn óleyst en ný sönnunargögn hafa tengt þýskan karlmann að nafni Christian B. við hvarfið og liggur hann nú undir grun.

Foreldrarnir upphaflega grunaðir

Fyrst þegar málið kom upp var talið að andlát barnsins hefði verið slys en lögregla hafði foreldrana grunaða um að hafa falið lík dóttur sinnar í kjölfarið og sviðsett rán.

Árið 2008 kom svo út bók eftir Goncalo Amaral, portúglaska rannsóknarlögreglumanninn, þar sem þessar ásakanir voru endurteknar.

Foreldrarnir, Gerry McCann og Kate McCann, töldu að fullyrðingar lögreglumannsins hefðu skaðað mannorð þeirra og brotið gegn friðhelgi þeirra og fjölskyldulífi. 

Höfðuðu þau meiðyrðamál gegn lögreglumanninum í Portúgal og féll dómurinn þeim í vil. Þeirri niðurstöðu var þó snúið við í hæstarétti landsins svo málinu var áfrýjað á nýjan leik en nú til Mannréttindadómstólsins. 

Dóminum snúið við í hæstarétti

Í úrskurði MDE kemur fram að fullyrðingar Amarals hafi þegar verið settar fram í opinberum lögregluskýrslum, sem fjölmiðlar hefðu verið með aðgang að.

Þá kemur jafnframt fram að þó svo að orðspor foreldranna hefði beðið hnekki þá sé það ekki vegna þeirra röksemda sem fram komu í bókinni.

Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að foreldrarnir hafi fengið réttláta málsmeðferð hjá hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert