Forstjóri vegankeðju handtekinn fyrir að bíta mann í nefið

Douglas Ramsey var sleppt gegn greiðslu tryggingagjalds.
Douglas Ramsey var sleppt gegn greiðslu tryggingagjalds. Ljósmynd/Washington County Arkansas

Forstjóri vegankeðjunnar Beyond Meat hefur verið handtekinn fyrir líkamsárás, en forstjórinn er sakaður um að hafa bitið í nef annars manns. 

Fram kemur í dómsskjölum að forstjórinn, hinn 53 ára gamli Douglas Ramsey, hafi verið ákærður fyrir hótanir og minniháttar líkamsárás. Ramsey var sleppt úr haldi í fyrradag eftir að hafa greitt 11.000 dali í tryggingu, en það samsvarar um einni og hálfri milljón króna. 

Atvikið átti sér stað á laugardagskvöld í borginni Fayetteville í Arkansas er hann var að yfirgefa bílastæðahús að loknum leik í bandarískum ruðningi. Þar lenti hann í deilum við annan mann sem endaði með því að hann beit hann í nefið með þeim afleiðingum að lítill hluti rifnaði framan af nefbroddinum. Þetta kemur fram í umfjöllun bandarísku fréttastöðvarinnar KNWA/KFTA sem vísaði í frumskýrslu lögreglunnar í borginni. 

Ramsey hafði starfað í yfir þrjá áratugi hjá kjötvinnslustöðinni Tyson Foods þar sem hann hafði yfirumsjón með alifuglarækt og viðskiptum við McDonalds-skyndibitakeðjuna. Hann tók síðan við sem forstjóri Beyond Meat í desember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert