Geim-methafi látinn

Valery Polyakov er látinn en enginn hefur dvalið lengur samfleytt …
Valery Polyakov er látinn en enginn hefur dvalið lengur samfleytt í geimnum en hann. Ljósmynd/Wikipedia.org/Mil.ru

Rússneski geimfarinn Valery Polyakov er látinn, 80 ára að aldri, en hann vann sér það til frægðar um ævina að dvelja lengst allra fram til þessa utan gufuhvolfs jarðar, frá 8. janúar 1994 til 22. mars 1995, samtals 437 daga, er hann var við störf í sovésku, síðar rússnesku, geimstöðinni Mir.

Fór Polyakov á þessu tímabili 7.000 sinnum umhverfis jörðina en í starfi hans fólst tilraun til að kanna hve lengi mætti búast við að fólk væri með öllum mjalla við dvöl í geimnum og þá með leiðangra til Mars í huga.

Þegar geimfarinn skilaði sér til jarðar sýndu öll próf er á honum voru reynd að hann væri við fullkomlega eðlilega andlega heilsu svo það liggur þá fyrir þótt enginn hafi farið til Mars enn sem komið er.

Geimstöðin Mir á sporbaug um jörðu 12. júní 1998.
Geimstöðin Mir á sporbaug um jörðu 12. júní 1998. Ljósmynd/Wikipedia.org/NASA

Rússneska geimferðastofnunin Roscosmos lýsti því einnig yfir á sínum tíma að tilraunin hefði enn fremur sýnt fram á að mannslíkaminn þyldi vel óralangar ferðir um geiminn. Geimstöðinni Mir var fyrst skotið á loft 19. febrúar 1986, aðeins þremur vikum eftir að sjö geimfarar fórust þegar geimferjan Challenger sprakk í loft upp við flugtak 28. janúar.

20 tonn í sjóinn

Við fall Sovétríkjanna varð stöðin rússnesk og síðar störfuðu bandarískir geimfarar einnig við hana áður en hún var látin hrapa til jarðar 23. mars 2001. Megnið af þeim 136 tonnum sem Mir vó brann upp við komuna inn í lofthjúp jarðar en um 20 tonn náðu þó í gegn og féllu í Kyrrahafið.

Polyakov fæddist í rússnesku borginni Tula, suður af Moskvu, árið 1942. Hann nam læknisfræði og varð læknir áður en ferill hans sem geimfari hófst. Fyrsta ferð hans út í geiminn var farin í ágúst 1988 og dvaldi hann þá átta mánuði í geimnum.

Er hann sneri til baka úr langdvölinni árið 1995 neitaði hann að láta bera sig út úr lendingarhylkinu svo sem siður er þegar geimfarar snúa aftur til jarðar og hafa ekki vanist þyngdarafli á nýjan leik. Í staðinn fékk hann viðstadda til að styðja sig á meðan hann gekk sjálfur úr hylkinu á steig fæti á fasta jörð í fyrsta sinn í á fimmta hundrað daga.

The Moscow Times

BBC

The New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert