230 grindhvali rak á land

Grindhvalavaðan á strönd Tasmaníu.
Grindhvalavaðan á strönd Tasmaníu. AFP

230 grindhvali rak á land á vesturströnd áströlsku eyjunnar Tasmaníu í dag. Að sögn ástralskra embættismanna virðist aðeins helmingur þeirra vera á lífi.

Heimamenn hafa breitt teppi yfir þá hvali sem enn eru á lífi og helltu fötum af vatni yfir þá í viðleitni til að halda þeim á lífi.

Samkvæmt ástralska auðlinda- og umhverfisráðuneytinu rak grindhvalina, sem kallast einnig marsvín, á land nærri Macquarie-höfninni og eru sérfræðingar í sjávarvernd og starfsfólk með hvalabjörgunarbúnað á leið á vettvang.

Forðast að laða hákarla á svæðið

Reyna á að koma dýrunum sem eru talin nógu sterk til að lifa af, aftur á flot, og draga hræ hinna út á haf til að forðast að laða hákarla á svæðið.

Tæp tvö ár eru síðan að 500 hvali rak á land í sömu höfn en þá drápust 300 grindhvalir.

Ekki er vitað að fullu af hverju hvalina rak á land en vísindamenn hafa bent á að mögulegt sé að grindhvalavaðan hafi rekið á land eftir að hafa leitað matar of nærri landi.

Grindvalir eru mjög félagslyndir og eiga það til að fylgja félögum sínum sem villast. Það gerist stundum þegar gömul, veik eða slösuð dýr synda í landi að þá fylgi aðrir meðlimir vöðunnar þeim eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert