Kveikti í sér nærri skrifstofu forsætisráðherra

Lögreglan vaktar götuna sem leiðir að heimili forsætisráðherra Japans.
Lögreglan vaktar götuna sem leiðir að heimili forsætisráðherra Japans. AFP/Richard A. Brooks

Maður kveikti í sjálfum sér fyrir utan skrifstofu forsætisráðherra í Japan eftir að hafa tilkynnt óánægju sína með áætlaða ríkisútför Shinzo Abe, fyrrverandi forsætisráðherra landsins.

Þetta fullyrða fjölmiðlar í Japan en lögreglan þar í landi hefur ekki staðfest atvikið.

Aðalritari ríkisstjórnarinnar, Hirokazu Matsuno, segir að lögreglan hafi fundið mann með brunasár á gatnamótum fyrir neðan skrifstofu stjórnarráðsins. Hann segir að atvikið sé rannsakað af lögreglu og vildi ekki tjá sig meira um málið.

Maðurinn er talinn vera á áttræðisaldri en Jiji-fréttastofan fullyrðir að hann hafi sagt lögreglu frá því að hann hefði hellt yfir sig olíu.

Um miðjan morgun voru einu ummerkin um atvikið brunnið gras og brunninn runni.

Jiji segir að handskrifuð blöð sem lýsa mótmælum mannsins gegn ríkisútförinni hafi fundist nærri manninum.

Ríkisútfarir eru sjaldgæfar í Japan en skoðanakannanir sýna að meira en helmingur almennings sé á móti því að ríkið sé að standa í slíku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert