Lögregla í Ósló skaut hnífamann

Lögregla við störf á vettvangi í morgun.
Lögregla við störf á vettvangi í morgun. Skjáskot/Myndskeið NRK

Lögreglan í Ósló skaut mann í morgun sem var á ferli á E18-brautinni við Bygdølokket og ógnaði vegfarendum þar með hníf á lofti. Barst lögreglu tilkynning klukkan 05:20 í morgun, 03:20 að íslenskum tíma, um manninn, sem gekk milli bifreiða á akbrautinni, þar sem töluverð umferð var og hægagangur af þeim sökum.

Segir Sven Christian Lie varðstjóri frá því í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að lögreglu hafi reynst örðugt að komast akandi að manninum og hafi því nálgast hann fótgangandi. Hafi hann þá brugðist ókvæða við og lögregla þá dregið upp skotvopn og skotið manninn niður.

Langar raðir til Óslóar

Að sögn Lie voru sár hans ekki alvarleg og var hann fluttur á sjúkrahús þar sem hann nýtur nú aðhlynningar. Aðspurður kveður Lie lögreglumenn á vettvangi ekki hafa skotið viðvörunarskoti áður en maðurinn varð fyrir skoti þeirra.

Engan vegfaranda sakaði og kveður varðstjóri lögreglu nú ræða við vitni til að gera sér mynd af atburðarásinni. „Við verðum að fá að greina frá því síðar hvað kemur út úr því,“ sagði hann við NRK rétt fyrir klukkan sjö í morgun, fimm á Íslandi.

Samkvæmt frétt TV2 ógnaði maðurinn þremur eða fjórum ökumönnum áður en lögregla kom á vettvang. Loka þurfti E18 að hluta vegna atburðarins og mynduðust langar raðir bifreiða á leið inn til Óslóar. Opnað hefur verið fyrir umferð að nýju nú.

NRK

Aftenposten

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert