Fleiri en þúsund manns hafa verið handteknir við mótmæli víðs vegar í Rússlandi í dag. Mótmæli gegn innrásinni í Úkraínu brutust út í fjölda borga í Rússlandi eftir að forsetinn Vladimír Pútín tilkynnti herkvaðningu.
Eins og greint hefur verið frá stendur til að virkja 300 þúsund manna varalið og tók sú ákvörðun gildi í dag.
Um hundrað manns voru handteknir í St. Pétursborg þar sem lögreglan í borginni notaði kylfur til að berja niður mótmælendur.
Fréttastofa CNN greinir frá því að myndefni hafi borist frá ýmsum rússneskum borgum af hörðum aðgerðum lögreglu gegn mótmælendum.
Embætti saksóknara í Moskvu gaf frá sér yfirlýsingu í dag í kjölfar mótmælanna. Þar varaði saksóknari fólk við því að mótmæla og sagði að þeir sem gerðu það gætu átt yfir höfði sér fimmtán ára fangelsisdóm.