Atkvæðagreiðsla í héruðum sem Rússar hafa hernumið í Úkraínu, er sögð hafa byrjað í morgun þar sem kosið er um hvort íbúar styðji innlimun svæðanna í Rússland.
Er íbúum héraðanna Kerson og Saporisjía í suðurhlutanum og Donetsk og Lúhansk í austurhlutanum, boðið að greiða atkvæði fram á þriðjudag.
Umrædd héruð eru vígvellir gagnsóknar Úkraínumanna en hersveitir frá Kænugarði hafa endurheimt á nokkur hundrað bæi og þorp sem voru áður yfirráðasvæði Rússa.
Innlimun héraðanna í Rússland gæti haft afdrifaríkar afleiðingar þar sem Moskva gæti haldið því fram að verið sé að vernda eigið umdæmi fyrir úkraínskum hersveitum.
Úkraínumenn hafa fordæmt atkvæðagreiðsluna og sagt landnámið ólöglegt. Þá er talið líklegt að Rússar muni eiga við atkvæðagreiðsluna svo að búast megi við fölskum niðurstöðum sem kveði á um að innlimunin verði samþykkt.
Þá hafa önnur ríki einnig fordæmt áform um atkvæðagreiðsluna, þar á meðal Tyrkland.
„Þessar ólögmætu aðgerðir verða ekki viðurkenndar alþjóðlega,“ sagði í yfirlýsingu frá tyrkneska utanríkisráðuneytinu.