Utanríkisráðherrar Kína og Úkraínu funduðu

Dmítró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu.
Dmítró Kúleba, utanríkisráðherra Úkraínu. AFP/Bryan R. Smith

Wang Yi, ut­an­rík­is­ráðherra Kína, fundaði með úkraínska starfs­bróður sín­um Dmítró Kúleba í New York í Banda­ríkj­un­um þar sem alls­herj­arþing Sam­einuðu þjóðanna fer nú fram. Kín­verska ut­an­rík­is­ráðuneytið hef­ur staðfest þetta og sömu­leiðis Kúleba.

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem ráðherr­arn­ir funda aug­liti til aug­lit­is frá því að inn­rás Rússa í Úkraínu hófst í fe­brú­ar á þessu ári. Það hafa þó farið fram tvö sím­töl á milli þeirra.

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, á allsherjarþinginu.
Wang Yi, ut­an­rík­is­ráðherra Kína, á alls­herj­arþing­inu. AFP/​Michael M. Santiago

Á Wang að hafa sagt við Kúleba að mik­il­vægt væri að virða full­veldi allra ríkja og landsvæði þeirra. Þá yrði að taka áhyggj­um ríkja um ör­ygg­is­ógn­ir al­var­lega og að mik­il­vægt væri að styðja við all­ar þær leiðir sem stuðla að friði í þess­ari krísu.

Í tísti Kúleba, þar sem hann staðfest­ir m.a. fund­inn, seg­ir úkraínski ráðherr­ann að kín­verski starfs­bróðir hans hafi ít­rekað stuðning Kína við full­veldi Úkraínu. Auk þess hafi hann hafnað vald­beit­ingu sem lausn á átök­un­um.

Hafa ekki for­dæmt inn­rás­ina

Yf­ir­völd í Pek­ing hafa neitað að for­dæma inn­rás Rúss­lands í Úkraínu en Xi Jin­ping, for­seti Kína, er bandamaður Vla­dimír Pútíns Rúss­lands­for­seta. 

Kína hef­ur kallað eft­ir friðsam­legri lausn á átök­un­um í gegn­um viðræður en hef­ur þó ekki gripið til aðgerða sem gætu stuðlað að slík­um viðræðum.

At­kvæðagreiðsla haf­in

At­kvæðagreiðsla í héruðum sem Rúss­ar hafa her­numið í Úkraínu, er sögð hafa byrjað í morg­un þar sem kosið er um hvort íbú­ar styðji inn­limun svæðanna í Rúss­land.

Um­rædd héruð eru víg­vell­ir gagn­sókn­ar Úkraínu­manna en her­sveit­ir frá Kænug­arði hafa end­ur­heimt á nokk­ur hundrað bæi og þorp sem voru áður yf­ir­ráðasvæði Rússa.

Inn­limun héraðanna í Rúss­land gæti haft af­drifa­rík­ar af­leiðing­ar þar sem stjórn­völd í Moskvu gætu haldið því fram að verið sé að vernda eigið um­dæmi fyr­ir úkraínsk­um her­sveit­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka