Eftirlitsnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna birti á föstudaginn úrskurð þess efnis að ástralska ríkið hafi brotið á mannréttindum þarlendra frumbyggja með aðgerðarleysi vegna hnattrænnar hlýnunar.
Úrskurður þessi er fordæmalaus og kemur frá Mannréttindanefnd sameinuðu þjóðanna sem starfar á grundvelli alþjóðsamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966.
Aðdragandi ákvörðunarinnar var sá að 14 Torres-eyjaskeggjar sendu erindi til nefndarinnar árið 2019 þar sem þeir kvörtuðu yfir því að ástralska ríkið hafi ekki gripið til nauðsynlegra úrræða til þess að draga úr áhrifum hnattrænnar hlýnunar á þeirra lífsviðurværi.
Þannig hefði ríkið hvorki viðhaldið veggjum til varnar ágangi sjávar né dregið úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Héldu eyaskeggjar því fram fyrir nefndinni að veðurbreytingar á svæðinu hafi haft skaðleg áhrif á lífshætti þeirra og menningu.
Nefndin féllst á kvörtun eyjaskeggja og gerði yfirvöldum Ástralíu að greiða sekt vegna brota á tveimur ákvæðum sáttmálans.
„Ástralía hefur brugðist skyldum sínum til þess að vernda Torres-frumbyggjana fyrir neikvæðum áhrifum hnattrænnar hlýnunar. Með því hefur ríkið brotið gegn rétti þeirra til þess að lifa lífi án handahófskenndra inngripa í einka-, fjölskyldu- og heimilislíf,“ segir í ákvörðun nefndarinnar sem er skipuð 18 sérfræðingum í mannréttindalögfræði.
Torres-eyaskeggjar héldu því fram að breytingar á veðráttu hefðu bein áhrif á menningu og lífshætti þeirra og bentu meðal annars á að tíðari flóð yllu því að hefðbundnu grafreitir þeirra flæddu yfir með þeim afleiðingum og líkamsleifar færu á víð á dreif um eyjarnar.
Seinagangur ástralska ríkisins í byggingu varnargarða við strendur eyjanna hafi því verið brot gegn mannréttindum eyjaskeggjanna.
Mannréttindanefndin reifaði einnig sjónarmið ástralska ríkisins í málinuu sem hélt því meðal annars fram að hlýnun jarðar væri hnattrænn vandi sem mætti rekja til margra ríkja og lausn þess vanda krefðist þess vegna alþjóðlegs átaks.
Nefndin taldi það samt sem áður skyldu hvers ríkis fyrir sig að vernda mannréttindi sinna viðkvæmustu hópa gegn neikvæðum áhrifum hnattrænnar hlýnunar með nauðsynlegum ráðstöfunum. Þau ríki sem láti sér það í léttu rúmi liggja geti því verið að brjóta gegn alþjóðalögum.
Þó ákvarðanir nefndarinnar hafi ekki bein réttaráhrif geta þær haft mikil áhrif á orðstír þjóða. Nefndin beindi þeim tilmælum til ástralska ríkisins að bæta það tjón sem það hefði valdið með aðgerðarleysi sínu.