Danska siglingamálastofnunin tilkynnti í dag „hættulegan“ gasleka í Eystrasalti nálægt Nord Stream 2-gasleiðslunni óvirku en tilkynnt hefur verið um óútskýrða minnkun á þrýstingi í leiðslunni.
Gaslekinn, sem er suðaustan við dönsku eyjuna Borgundarhólm, „er hættulegur fyrir sjóumferð“ og óheimilt er að sigla í fimm sjómílna radíus frá svæðinu, að því er fram kemur í tilkynningu frá dönsku siglingamálastofnuninni.
Gasleiðslan Nord Stream 2 liggur samhliða Nord Stream 1 og var ætlað að tvöfalda innflutning sjóleiðis á gasi frá Rússlandi til Þýskalands.