Stjórnvöld í Rússlandi viðurkenna að mistök hafi verið gerð í tengslum við herkvaðningu varaliða vegna innrásar landsins í Úkraínu. Þau segja að engin ákvörðun hafi verið tekin um að loka rússnesku landamærunum.
„Það eru tilfelli þar sem brotið var gegn tilskipun (um herkvaðningu). Í sumum héruðum eru ríkisstjórar í óðaönn að lagfæra vandamálið,“ sagði Dmití Peskov talsmaður Kremlar.
„Tilvikum þar sem tilskipuninni er ekki fylgt fer fækkandi. Við vonumst til að málinu verði hraðað og öll mistök verði leiðrétt.“
Mótmæli hafa verið víða um Rússland vegna herkvaðningarinnar og hefur fjöldi rússneskra karlmanna flykkst að landamærunum.
Spurður sagði Peskov að engin ákvörðun hefði verið tekin um að loka ytri landamærum Rússlands og setja á herlög í sumum landamærahéruðum.
„Ég veit ekkert um þetta. Engin ákvörðun hefur verið tekin eins og staðan er núna,“ sagði hann.