Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, segir það „erfitt að ímynda sér“ að þrír lekar, sem orðið hafa á gasleiðslunum Nord Stream 1 og 2 þar sem þær liggja um Eystrasaltið, hafi komið til fyrir slysni.
„Þetta er óvenjulegt ástand, að upp komi þrír lekar með nokkru millibili hver frá öðrum. Þess vegna er erfitt að ímynda sér að þetta sé tilviljun,“ sagði ráðherrann í samtali við danska fjölmiðla í Póllandi í dag, en þar er hún stödd í opinberri heimsókn.
Danska siglingamálastofnunin tilkynnti um leka á Nord Stream 2-leiðslunni í gær. Síðan hafa fleiri komið í ljós.