Stjórnvöld Þýskalands munu áfram starfrækja tvö af þremur kjarnorkuverum í landinu en yfirvöld þar í landi segja í yfirlýsingu þess efnis að svo verði þar til í apríl á næsta ári.
Árið 2000 náðu þýska ríkisstjórnin og forsvarsmenn stærstu orkufyrirtækjanna í landinu samkomulagi um að leggja niður 19 kjarnorkuver í landinu í nokkrum áföngum. Reiknað var með að síðasta kjarnorkuverið yrði lagt niður eigi síðar en árið 2021.
Efnahagsráðherrann, Robert Habeck, greindi frá þessari stefnubreytingu í dag.
Um er að ræða kjarnaofninn Isar 2 í Bæjaralandi annars vegar og Neckarwestheim, norður af Stuttgart, hins vegar.
Fyrr í dag var greint frá því að evrópsk stjórnvöld grunuðu Rússa um að hafa framið skemmdarverk á gasleiðslunum Nord Stream 1 og 2, sem liggja um Eystrasalt og flytja gas frá Rússlandi til Þýskalands.
Heimildir þýskra miðla herma að um markvissa árás hafi verið að ræða.
Dönsk, sænsk og þýsk yfirvöld hafa hafið rannsókn á þremur lekum sem greindust í gasleiðslunum í gær en mælistöðvar í Danmörku og Svíþjóð greindu sprengingar neðansjávar um svipað leyti í grennd við lekana.
Dmitrí Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, sagði að ekki væri hægt að útiloka neitt þegar blaðamenn spurðu hann hvort skemmdarverk hefðu valdið lekunum.