Danski herinn hefur birt myndskeið á vefsíðu sinni þar sem að sjá má hvernig gasið sem lekur úr Nord Stream leiðslunni kemur upp á yfirborð Eystrasalts með nokkrum látum. Myndskeiðið er tekið úr þyrlu norska hersins.
Búið er að greina þrjá leka í Nord Stream 1 og 2 gasleiðslunum sem leiða gas frá Rússlandi til Þýskalands. Tveir lekar eru í Nord Stream 1 norðaustur af eyjunni Borgundarhólmi og einn leki er í Nord Stream 2 sem liggur suðaustan við eyjuna.
Í tilkynningu frá dönsku siglingamálastofnuninni kom fram að gaslekinn í Nord Stream 2 væri hættulegur fyrir sjóumferð og að óheimilt væri að sigla í fimm sjómílna radíus frá svæðinu.
Evrópsk stjórnvöld gruna Rússa um að hafa framið skemmdarverk á leiðslunum en mælistöðvar í Danmörku og Svíþjóð greindu sprengingar neðansjávar í gær sem er um það leyti sem lekarnir komu fram.
Dmitrí Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, sagði að ekki væri hægt að útiloka neitt þegar hann var spurður af blaðamönnum hvort skemmdarverk hefðu valdið lekunum.