Vladimír Pútín forseti Rússlands á að ávarpa báðar deildir rússneska þingsins á föstudaginn næsta. Breska varnarmálaráðuneytið telur að hann gæti notað tækifærið til að tilkynna formlega um innlimun hernuminna héraða í Úkraínu í Rússland.
„Raunhæfur möguleiki er á að Pútín muni nota ávarpið til að tilkynna formlega innlimun svæðanna,“ segir í tísti ráðuneytisins á Twitter.
Stefnt er að því að atkvæðagreiðslunum sem nú standa yfir um innlimun héraðanna Lúgansk, Dónetsk, Kerson og Saporisjía ljúki í dag.
„Leiðtogar Rússlands vonast örugglega til þess að tilkynning um innlimun verði álitin stuðningur við „sérstöku hernaðaraðgerðirnar“ og muni enn fremur styðja við átökin,“ segir í tístinu.
Latest Defence Intelligence update on the situation in Ukraine - 27 September 2022
— Ministry of Defence 🇬🇧 (@DefenceHQ) September 27, 2022
Find out more about the UK government's response: https://t.co/xG1CgXqeKM
🇺🇦 #StandWithUkraine 🇺🇦 pic.twitter.com/schw2ockbs
Innlimun héraðanna í Rússland gæti haft afdrifaríkar afleiðingar þar sem Moskva gæti haldið því fram að verið sé að vernda eigið umdæmi fyrir úkraínskum hersveitum.
Úkraínumenn hafa fordæmt atkvæðagreiðsluna og sagt landnámið ólöglegt. Þá er talið líklegt að Rússar muni eiga við atkvæðagreiðsluna svo að búast megi við fölskum niðurstöðum sem kveði á um að innlimunin verði samþykkt.