Algjört rafmagnsleysi er nú á Kúbu eftir að fellibylurinn Ian skall á vesturenda eyjunnar, að því er BBC greinir frá.
Rafmagnskerfið hefur algjörlega hrunið að sögn embættismanna en ekki hefur tekist að koma einu af helstu raforkuverum landsins aftur í gagnið.
Tilkynnt hefur verið um tvö andlát og fjöldi bygginga um landið allt eru stórskemmdar.
Fellibylurinn hefur verið skilgreindur sem þriðja stigs fellibylur en hann gengur nú yfir Flórída-ríki í Bandaríkjunum.
Í kúbverska ríkissjónvarpinu í gær tilkynnti yfirmaður raforkumálayfirvalda að rafmagnsleysi á eyjunni hefði átt sér stað vegna bilunar í rafkerfi landsmanna og að 11 milljónir væru án rafmagns.
Vindlaframleiðandinn Hirochi Robaina sem framleiðir vindlana Finca Robaina birti myndir á Facebook-síðu sinni af eyðileggingunni sem fellibylurinn olli á tóbaksbýli hans.
„Þetta er heimsendaástand, algjör hörmung,“ skrifaði hann.