Talskona utanríkisráðuneytis Rússlands segir að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, verði að svara fyrir það hvort Bandaríkin beri ábyrgð á gasleka úr gasleiðslunum Nord Stream 1 og 2. Leiðslurnar liggja um Eystrasalt og eiga að flytja gas frá Rússlandi til Þýskalands.
Talskonan vísaði til þess í færslu á samfélagsmiðlum að forseti Bandaríkjanna hefði haft í hótunum um að það yrðu endalok flutnings um gasleiðslurnar ef Rússar réðust inn í Úkraínu.
„Þann 7. febrúar 2022 sagði Joe Biden að Nord Stream væri búin að vera ef innrás Rússa í Úkraínu yrði að veruleika. Biden ber skylda til að svara því hvort Bandaríkin hafi gert alvöru úr þessum hótunum,“ sagði María Sakaróva, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, í færslunni.
Stjórvöld víða í Evrópu gruna aftur á móti Rússa um að hafa framið skemmdarverk á gasleiðslunum.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði á blaðamannafundi í gær að gaslekinn væri tilkominn vegna „skemmdarverka af ásetningi“. Ekki væri um óhapp að ræða.
Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, tók undir þau orð Frederiksen í yfirlýsingu í dag. Hann hefur kallað eftir rannsókn á lekanum.
Mælistöðvar í Svíþjóð og Danmörku greindu kröftugar sprengingar neðansjávar í fyrradag á þeim svæðum þar sem lekinn greindist.