Biden svari fyrir hótanir um endalok Nord Stream

Þrír lekar hafa orðið úr gasleiðslunum.
Þrír lekar hafa orðið úr gasleiðslunum. AFP

Talskona utanríkisráðuneytis Rússlands segir að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, verði að svara fyrir það hvort Bandaríkin beri ábyrgð á gasleka úr gasleiðslunum Nord Stream 1 og 2. Leiðslurnar liggja um Eystrasalt og eiga að flytja gas frá Rússlandi til Þýskalands.

Talskonan vísaði til þess í færslu á samfélagsmiðlum að forseti Bandaríkjanna hefði haft í hótunum um að það yrðu endalok flutnings um gasleiðslurnar ef Rússar réðust inn í Úkraínu.

„Þann 7. febrúar 2022 sagði Joe Biden að Nord Stream væri búin að vera ef innrás Rússa í Úkraínu yrði að veruleika. Biden ber skylda til að svara því hvort Bandaríkin hafi gert alvöru úr þessum hótunum,“ sagði María Sakaróva, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, í færslunni.

Segja ekki um óhapp að ræða

Stjórvöld víða í Evrópu gruna aftur á móti Rússa um að hafa framið skemmd­ar­verk á gas­leiðsl­un­um. 

Mette Frederik­sen, for­sæt­is­ráðherra Dan­merk­ur, sagði á blaðamannafundi í gær að gas­lekinn væri tilkominn vegna „skemmdarverka af ásetningi“. Ekki væri um óhapp að ræða.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, tók undir þau orð Frederiksen í yfirlýsingu í dag. Hann hefur kallað eftir rannsókn á lekanum.

Mælistöðvar í Svíþjóð og Dan­mörku greindu kröft­ug­ar spreng­ing­ar neðan­sjáv­ar í fyrradag á þeim svæðum þar sem lekinn greindist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert