Evrópusambandið telur að gaslekar úr gasleiðslunum Nord Stream 1 og 2, sem liggja um Eystrasalt og flytja gas frá Rússlandi til Þýskalands, séu „ekki tilviljun“ og að vísbendingar séu um „verknað af ásetningi“.
Þetta sagði Josep Borrell utanríkismálastjóri ESB í morgun. „Sérhver vísvitandi röskun á evrópskum orkumannvirkjum er algjörlega óviðunandi og verður mætt með öflugum og sameinuðum viðbrögðum,“ varaði hann við í yfirlýsingu.
Borrell hefur kallað eftir rannsókn á lekunum og sagði: „Allar tiltækar upplýsingar benda til þess að þessi leki sé afleiðing athafnar af ásetningi.“
„Við munum styðja allar rannsóknir sem miða að því að skýra til fulls hvað gerðist og hvers vegna, og munum gera frekari ráðstafanir til að tryggja orkuöryggi,“ bætti hann við.
„Það gæti tekið allt að tvær vikur áður en hægt er að rannsaka óútskýrðan gasleka á Nord Stream gasleiðslunum,“ sagði danski varnarmálaráðherrann, Morten Bødskov, í dag.
Vegna þrýstings inni í leiðslunum og vegna magns gaslekans er „veruleikinn sá að það getur auðveldlega tekið eina eða tvær vikur fyrir svæðið að róast nógu mikið til að sjá í raun hvað hefur gerst,“ sagði Bødskov.
„Það er mjög stór sprenging sem hefur átt sér stað og þess vegna mun það taka tíma áður en við komumst þangað niður,“ sagði ráðherrann en leiðslurnar eru á 80 metra dýpi.
Í gær sagði forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, að yfirvöld teldu lekana vera vegna „skemmdarverka af ásetningi,“ og að ekki væri um slys að ræða.
Kreml hefur svarað fyrir sig og segir það bæði „heimskulegt og fáránlegt“ að álykta að Rússar hafi staðið á bak við gaslekana.
„Það er frekar fyrirsjáanlegt og líka fyrirsjáanlega heimskulegt að gefa frásögnum sem þessum byr undir vængi. Það er fyrirsjáanlega heimskulegt og fáránlegt,“ sagði talsmaður Kreml, Dmitrí Peskov, við blaðamenn eftir að Úkraína sagði lekana vera „hryðjuverkaárás“ á vegum Rússa.