Björgunarsveit í Nepal hefur fundið lík bandarísku skíða- og fjallgöngukonunnar Hilaree Nelson skammt frá tindi fjallsins Manaslu í Himalajafjöllum.
Nelson, sem var 49 ára gömul, var á leið niður fjallið, sem er áttunda hæsta fjall í heimi, ásamt unnusta sínum þegar hún hvarf á mánudag.
Hópur björgunarsveitarmanna fann lík hennar í dag í suðurhlíð fjallsins sem er 8.163 metra hátt. Upphaflega var talið að hún hefði fallið ofan í sprungu.
Nelson þótti einn fremsti fjallgöngumaður sinnar kynslóðar.
Árið 2018 varð hún og unnusti hennar, Jim Morrison, fyrst til að skíða niður Lhotse-fjall í Nepal, sem er fjórða hæsta fjall heims.
Þá var hún einnig fyrsta konan til að komast á topp nágrannatindanna Everest og Lhotse á einum sólarhring.