Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun funda um lekann frá Nord Stream 1 og 2 gasleiðslunum á föstudaginn, að fram kom í máli Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar, á blaðamannafundi í dag.
Það voru Rússar sem óskuðu eftir fundinum, en stjórnvöld víða um Evrópu gruna Rússa um að standa að baki skemmdarverkum á gasleiðslunum.
Leiðslurnar liggja um Eystrasalt og eiga að flytja gas frá Rússlandi til Þýskalands. Þær hafa ekki verið í notkun upp á síðkastið, en eru engu að síður fullar af metangasi. Talið er að um 350 þúsund tonn af gasi hafi verið í leiðslunum og að helmingur þess hafi nú þegar sloppið út í andrúmsloftið.
Talskona utanríkisráðuneytis Rússlands sagði í færslu á samfélagsmiðlum fyrr í dag að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, yrði að svara fyrir það hvort Bandaríkin beri ábyrgð á lekanum. Þeir hefðu hótað endalokum leiðslnanna ef Rússar réðust inn í Úkraínu.
Talskona Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna svaraði því til að það væri „fáránlegt“ að krefjast svara frá Biden. Rússar væru þekktir fyrir að dreifa fölskum upplýsingum og væru að gera það núna.