Bandarísk hjón sökuð um að njósna fyrir Rússa

Henry og Gabrielian eru sakaðar um að hafa ætlað að …
Henry og Gabrielian eru sakaðar um að hafa ætlað að deila trúnaðarupplýsingum. AFP

Lækn­ir banda­ríska hers­ins og eig­in­kona henn­ar, sem einnig er lækn­ir, hafa verið ákærðar fyr­ir áform um að leka upp­lýs­ing­um til rúss­neskra stjórn­valda.

Jamie Lee Henry og Anna Gabrieli­an eru sakaðar um að hafa ætlað að deila trúnaðar­upp­lýs­ing­um um sjúk­linga á her­sjúkra­húsi, að því er BBC grein­ir frá.

Í ákær­unni kem­ur fram að Henry hafi ætlað að nota heim­ild sína til að fá aðgang að per­sónu­leg­um sjúkra­skrám frá sjúkra­hús­inu í Fort Bragg, her­stöðinni þar sem hún starfaði.

Þær hafi ætlað að af­henda sjúkra­skrárn­ar til að sanna vilja þeirra til að aðstoða Rússa. Rúss­nesk yf­ir­völd hafa ekki tjáð sig um málið.

Íhugaði að ganga í rúss­neska her­inn

Gabrieli­an er ákærð fyr­ir að hafa ætlað að deila upp­lýs­ing­um frá sín­um vinnustað, Johns Hopk­ins sjúkra­hús­inu í Baltimore. Hún er sögð hafa boðist til þess að aðstoða rúss­neska sendi­ráðið í Washingt­on, í kjöl­far inn­rás­ar Rússa í Úkraínu.

Um miðjan ág­úst leitaði til henn­ar ein­stak­ling­ur sem sagðist vinna fyr­ir rúss­neska sendi­ráðið, en var í raun full­trúi al­rík­is­lög­regl­unn­ar FBI. Sagðist Gabrieli­an vera til­bú­in til að veita Rúss­um alla aðstoð, jafn­vel þótt hún yrði rek­in eða vistuð í fang­elsi. Þá sagðist hún vera að íhuga að ganga í rúss­neska her­inn.

Hún er einnig sökuð um að hafa sagt FBI-full­trú­an­um að eig­in­kona henn­ar gæti miðlað upp­lýs­ing­um um hvernig banda­ríski her­inn kem­ur á fót her­sjúkra­hús­um við stríðsaðstæður og upp­lýs­ing­um um þjálf­un sem Banda­rík­in veittu úkraínska hern­um.

Verði þær fundn­ar sek­ar eiga þær yfir höfði sér að há­marki fimm ára fang­elsi fyr­ir sam­særið og tíu ár fyr­ir hverja ákæru um að birta heilsu­far­s­upp­lýs­ing­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert