Fjórði lekinn hefur fundist í neðansjávargasleiðslunum sem flytja gas frá Rússlandi til Þýskalands. Þetta staðfesti sænska strandgæslan í dag en grunur er um að skemmdarverk hafi verið framin á leiðslunum.
„Það eru tveir lekar á sænsku hliðinni og tveir lekar á danskri hlið,“ sagði embættismaður sænsku strandgæslunnar, en þrír lekar höfðu verið staðfestir fyrr í vikunni úr Nord Stream leiðslunum í Eystrasalti.
Embættismaðurinn bætti við að lekarnir tveir á sænsku hliðinni væru nálægt hvor við annan.
Sænska strandgæslan gat ekki upplýst um hvers vegna síðasti lekinn hafi komið í ljós nokkrum dögum eftir fyrstu lekana.
AFP fréttaveitan segir fjölmiðla hafa greint frá því að nýjasti lekinn hafi fundist við Nord Stream 2 leiðsluna en að strandgæslan hafi ekki staðfest það.
Svíþjóð hafði áður tilkynnt um leka á Nord Stream 1 leiðslunni norðaustur af Bornholm, en Danmörk hefur staðfest leka á Nord Stream 2 leiðslunni suðaustur af eyjunni og annan í norðaustri fyrir ofan Nord Stream 1.
Mikill leki veldur umtalsverðum loftbólum við yfirborð sjávar á nokkur hundruð metra svæði, sem gerir það að verkum að ekki er hægt að skoða leiðslurnar strax.
Grunsemdir um skemmdarverk vöknuðu eftir að lekarnir fundust. Rússar neituðu að þeir hefðu staðið á bak við sprengingarnar og sögðu hugmyndirnar „fáránlegar“.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman á föstudag til að ræða um lekana.