Bandaríkin hafa tilkynnt um „strangar“ nýjar viðskiptaþvinganir gegn rússneskum embættismönnum og varnarmálaiðnaðinum í Rússlandi í kjölfar yfirlýsingar Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, um að fjögur héruð Úkraínu væru nú orðin hluti af Rússlandi.
„Bandaríkin leggja fram skjótan og alvarlegan kostnað á Rússland,“ segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu. Þar segir einnig að G7 ríkin muni leggja sambærilegan „kostnað“ á þau lönd sem styðja tilraunir Rússa til að innlima héruðin fjögur.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur fordæmt „sviksamlega“ yfirlýsingu Pútíns og segir hann brjóta alþjóðalög.
„Bandaríkin fordæma sviksamlegar tilraunir Rússlands í dag til að innlima fullvalda landsvæði Úkraínu. Rússar brjóta með þessu alþjóðalög, traðka á stofnskrá Sameinuðu þjóðanna, og sýna fyrirlitningu sína á friðsamlegum þjóðum alls staðar,“ sagði Biden í tilkynningu.
„Bandaríkin munu alltaf virða alþjóðlega viðurkennd landamæri Úkraínu. Við höldum áfram að styðja Úkraínu í því að ná aftur landsvæðum sínum með því að styrkja landið hernaðarlega og diplómatískt.“