Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, kallaði Rússland „hryðjuverkaríki“ og sagði Rússa „blóðþyrst úrþvætti,“ eftir að rússneskir hermenn skutu á bílalest í morgun, sem flutti almenna borgara í mannúðlegum tilgangi, í Saporisjía í suðurhluta Úkraínu.
Að minnsta kosti 23 létust í árásinni og 28 særðust, allt almennir borgarar.
„Aðeins hryðjuverkamenn geta gert svona,“ sagði Selenskí jafnframt.
Þá sagði forsetinn að Rússar myndu gjalda fyrir þetta. „Fyrir hvert einasta úkraínska líf sem tapast.“
Fulltrúi Kremlar í Saporisjía sagði úkraínska hermenn en ekki rússneska standa að baki árásinni.
„Ríkisstjórnin í Kænugarði er að reyna að lýsa því sem gerðist sem skotárás rússneskra hermanna og grípa til svívirðilegrar ögrunar,“ sagði Vladimír Rogóv á Telegram.
„Úkraínskir bardagamenn frömdu enn eitt hryðjuverkið,“ bætti hann við.