Óskar eftir að NATO-umsóknin fái flýtimeðferð

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu.
Volodimír Selenskí forseti Úkraínu. AFP/Angela Weiss

Volodimír Selenskí, for­seti Úkraínu, hef­ur óskað eft­ir því að um­sókn Úkraínu um inn­göngu í Atlants­hafs­banda­lagið (NATO) hljóti flýtimeðferð. 

„Við höf­um þegar sannað sam­hæfni okk­ar við staðla blanda­lags­ins. Við tök­um af­ger­andi skref með því að und­ir­rita beiðni um að um­sókn Úkraínu um inn­göngu í NATO verði flýtt,“ sagði for­set­inn í mynd­skeiði sem úkraínska for­seta­skrif­stof­an hef­ur birt á Face­book.

Seg­ir samn­ingsviðræður við Rúss­land úr sög­unni

Beiðnin kem­ur í kjöl­far þess að stjórn­völd í Rússlandi til­kynntu að fjög­ur héruð í Úkraínu yrðu inn­limuð í Rúss­land í kjöl­far um­deildr­ar at­kvæðagreiðslu þar um.

Greiddu íbú­ar héraðanna at­kvæði um það hvort þeir væru hlynnt­ir því eða and­víg­ir að héruðin yrðu inn­limuð í Rúss­land. Fyrr í vik­unni til­kynntu héraðsstjórn­irn­ar, sem tengd­ar eru rúss­nesk­um stjórn­völd­um, um sig­ur. Lík­legt þykir að at­kvæðagreiðslan og taln­ing­in hafi ekki farið heiðarlega fram. 

Selenskí hef­ur sagt, í kjöl­far þess­ara tíðinda, að ekki komi til frek­ari samn­ingsviðræðna milli Úkraínu og Rúss­lands út af at­kvæðagreiðslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert