Segir þriðju heimstyrjöldina löngu hafna

Úkraínskir hermenn skoða yfirgefinn rússneskan skriðdreka af gerðinni T-90A fyrr …
Úkraínskir hermenn skoða yfirgefinn rússneskan skriðdreka af gerðinni T-90A fyrr í dag, skammt frá Karkív. AFP

Þriðja heimsstyrjöldin er þegar hafin. Þetta segir Fiona Hill, sem sat áður í þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna og hefur sérhæft sig í málefnum Rússlands og Evrópu, í samtali við bandaríska tímaritið New Yorker.

Kveðst hún telja að ákveðin sjálfsblekking eigi sér nú stað í umræðunni, sem snýst um hvort Bandaríkin og Vesturlönd geti haldið áfram að styðja við Úkraínu og forðast átök við Rússland samtímis.

Hvað hana varðar þá eru Bandaríkjamenn þegar að berjast í þriðju heimsstyrjöldinni, hvort sem þeir viðurkenna það eður ei.

„Við höfum verið í þessu í langan tíma, og við höfum ekki náð að viðurkenna það,“ segir Hill.

Fiona Hill segir styrjöldina hafa byrjað með innlimun Krímsskaga.
Fiona Hill segir styrjöldina hafa byrjað með innlimun Krímsskaga. AFP

Hófst með innlimun Krímsskagans

Pútín hafi, eins og kunnugt er, innlimað Krímsskaga í Rússland fyrir átta árum síðan, á ólögmætan hátt, og þriðja heimsstyrjöldin sé því þegar hafin.

Telur Hill þá Pútín hafa mislesið í aðstæður og hvorki hafa búist við því að Vesturlönd og Bandaríkin myndu standa með Úkraínu á þann hátt sem þau hafa gert, né að Úkraínumenn myndu berjast svo ötullega gegn innrásinni.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti kvaðst hafa innlimað héruð í landið í …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti kvaðst hafa innlimað héruð í landið í dag. AFP

Framlengir mögulega stríðið

Fölsk innlimun Pútíns á frekara landsvæði Úkraínu, eins og tilkynnt var um í Kreml í dag, þyki líkleg til að aðeins framkalla frekari þvinganir af hálfu Vesturlanda, og framlengja mögulega stríðið sem Pútín lítur sífellt meira út fyrir að vera að tapa.

„Vandamálið er auðvitað, ef við mislesum hann, en einnig ef hann misles okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert