Segir Vesturveldin vilja gera Rússland að nýlendu

Vladimír Pútín við ræðuhöldin í Kreml í dag.
Vladimír Pútín við ræðuhöldin í Kreml í dag. AFP/Dmitry Astakhov

Vladimír Pútín Rússlandsforseti sagði í ræðu sinni í Kreml í dag, áður en hann undirritaði sáttmála um innlimun fjögurra héraða Úkraínu, að Vesturveldin væru að reyna að gera Rússland að nýlendu og borgara landsins að þrælum. Þá kenndi hann Vesturveldunum einnig um að hafa skipulagt sprengingar á Nord Stream gasleiðslunum í Eystrasalti.

„Það er vegna græðgi, takmark þeirrra er að viðhalda ótakmörkuðu valdi. Þetta eru raunverulegar ástæður þessa blandaða stríðs sem vestrið hefur sagt okkur á hendur. Þeir vilja gera okkur að nýlendu,“ sagði Pútín.

„Þeir vilja ekki sjá okkur sem frjálst samfélag. Þeir vilja líta á okkur sem hóp af þrælum.“

Vesturveldin hafi sprengt gasleiðslurnar

„Viðskiptaþvinganir eru ekki nóg fyrir vestrið, þeir hafa skipt yfir í skemmdarverk […] með því að skipuleggja sprengingar á alþjóðlegum gasleiðslum Nord Stream sem liggja á botni Eystrasaltsins,“ sagði Vladimír Pútín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert