Varnarmálaráðuneyti Úkraínu segir að hersveitir landsins séu komnar inn fyrir bæjarmörk Líman í Dónetsk-héraðinu í austurhluta Úkraínu. Bærinn hefur verið á valdi Rússa frá því í maí, eða skömmu eftir að stríðið hófst í febrúar.
Fyrr í dag var greint frá því að úkraínski herinn væri búinn að umkringja þúsundir rússneskra hermanna í Líman.
Samkvæmt upplýsingum frá varnarmálaráðuneyti Rússlands hafa rússneskir hermenn hörfað burt.
„Við erum komnir inn í Líman, en það eru bardagar,“ sagði Serhí Tjerevatí, talsmaður úkraínsku hersveitanna í austurhluta landsins.
Á myndskeiði sem hefur verið birt á Twitter sjást tveir úkraínskir hermenn líma fána Úkraínu við skilti við bæjarmörk Líman sem býður fólk velkomið.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti undirritaði í gær innlimun Dónetsk-héraðsins í Rússland. Alþjóðasamfélagið hefur fordæmt innlimunina og sagt hana ólöglega. Ef Úkraínumenn ná Líman undan valdi Rússa yrði það mikið högg fyrir stríðsrekstur Pútíns.
Ukrainian Air Assault Forces are entering Lyman, Donetsk region. #UAarmy has and will always have the decisive vote in today's and any future "referendums". pic.twitter.com/gGIIk9rNkG
— Defense of Ukraine (@DefenceU) October 1, 2022