Svo virðist sem gas sé hætt að leka úr Nord Stream 1 gasleiðslunni og að stærri lekinn frá Nord Stream 2 hafi stöðvast. Minni lekinn er þó enn sýnilegur, samkvæmt upplýsingum fá sænsku strandgæslunni sem kannaði svæðið í dag.
„Stærri lekinn er ekki lengur sýnilegur á yfirborðinu en sá minni hefur aukist aðeins,“ segir í yfirlýsingu frá strandgæslunni sem flaug yfir svæðið í morgun.
Gasleiðslurnar liggja um Eystrasalt og eiga að flytja gas frá Rússlandi til Þýskalands. Fjórir lekar komu að leiðslunum í síðustu viku eftir öflugar neðansjávarsprengingar. Stjórnvöld víða í Evrópu gruna Rússa um að hafa framið skemmdarverk á leiðslunum.