Hætta við umdeilda skattalækkun

Kwasi Kwarteng, fjármálaráðherra Bretlands.
Kwasi Kwarteng, fjármálaráðherra Bretlands. AFP

Ný ríkisstjórn Liz Truss í Bretlandi hefur tilkynnt um algjöra U-beygju á einni umdeildustu breytingunni sem lögð hefur verið til á skattkerfi Bretlands í fjáraukalögum Kwasi Kwarteng, fjármálaráðherra landsins. 

Tillagan fjallaði um að fella út hæsta skattþrep tekjuskatts í landinu, 45 prósent skatt á tekjur yfir 150.000 pund eða meira á ári. Það samsvarar um 24 milljónum íslenskra króna á ári á gengi dagsins í dag. 

Kwarteng sagði í samtali við BBC að tillagan, sem aðeins var kynnt ásamt mörgum öðrum fyrir 10 dögum, hafi „orðið að meiriháttar truflun á annars sterkum efnahagspakka“.

Vandræðalegt fyrir Truss

„Við töluðum við fólk, við hlustuðum á fólk, ég skil þetta,“ bætti hann við. 

Ákvörðunin er talin hin vandræðalegasta fyrir Truss og stjórn hennar en fjölmargir þingmenn í breska íhaldsflokknum – hennar eigin flokki – hafa talað opinberlega gegn tillögunni. 

Fyrrverandi ráðherrann, Grant Shapps, varaði nýlega við því að ef að tillögurnar færu í atkvæðagreiðslu í neðri deild þingsins, væri ekki víst að þær yrðu samþykktar. Þá hafði Michael Gove, sem Boris Johnson rak úr ríkisstjórn sinni skömmu áður en hann hætti sem forsætisráðherra, einnig haft sig mjög í frammi í gagnrýni á þessa skattalækkun sem nú hefur verið hætt við. 

Sjá má viðtal BBC við fjármálaráðherrann, hér að neðan: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert