Tsétsénski leiðtoginn Ramsan Kadírov segir að synir sínir þrír, 14, 15 og 16 ára, muni brátt ferðast til Úkraínu til þess að berjast í fremstu víglínu við hlið Rússa.
BBC greinir frá.
Kadríov er sagður mikill bandamaður Vladimírs Pútíns þrátt fyrir að hann hafi nýlega gagnrýnt skipulag rússneska hersins í Úkraínu.
Kadírov sagði á samfélagsmiðlum í gær að feður þyrftu að kenna sonum sínum hvernig vernda ætti fjölskyldur sínar, fólk í kringum sig og föðurland sitt.
Rússland er aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um að koma í veg fyrir að börn undir 18 ára aldri taki beinan þátt í átökum í nafni þjóða.
Þá flokkast beiting barna undir 15 ára aldri í stríði sem stríðsglæpur hjá Alþjóðaglæpadómstólnum. Rússar hafa þó ekki viðurkennt lögsögu hans.
Í löngum skilaboðum á Telegram sagði Kadírov að stríðsþjálfun sona hans hafi hafist þegar þeir voru mikið yngri og að tími væri nú kominn til að þeir fengju að upplifa raunveruleg átök í stríði.