Úkraínskar hersveitir hafa endurheimt aukið landsvæði í þeim héruðum sem Rússar innlimuðu á ólöglegan hátt á dögunum. Þær sækja fram skammt frá borginni Kerson í Kerson-héraði í suðurhluta Úkraínu og hafa einnig náð umtalsverðum árangri í austri.
Rússneskir embættismenn í Kerson-héraði staðfestu framgang úkraínsku hersveitanna en sögðu að rússneskir hermenn létu ekki sitt eftir liggja.
Í austri fóru Úkraínumenn inn í Luhansk-hérað, sem Rússar hafa á sínum völdum, að sögn BBC.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í ávarpi sínu að það væru „íbúabyggðir á þó nokkrum svæðum sem hafa nýlega verið frelsaðar“, án þess að greina nánar frá því.
Selenskí sagði einnig að „harðir bardagar haldi áfram á mörgum svæðum“.
Í suðri viðurkenndi Vladimir Saldo, leiðtogi Rússlands í Kerson-héraði, að úkraínskar hersveitir hefðu brotið sér leið á svæði skammt frá bænum Dudchany sem er staðsettur við ána Dnipro.