Líklegt er að ofurstórmeistarinn Hans Niemann hafi svindlað í yfir hundrað skákum á netinu, sem er meira en hann hefur þorað að viðurkenna, að því er fram kemur í nýrri rannsókn Chess.com. Wall Street Journal greinir frá þessu.
Heimsmeistarinn Magnus Carlsen tapaði gegn Niemann nýverið og sakaði hann um svindl. Hinn 19 ára Niemann, sem hefur tekið ótrúlegum framförum á undanförnum misserum, neitar alfarið ásökunum.
Þó játaði Niemann að hafa svindlað, símleiðis í samtali við Danny Rensch, forstjóra Chess.com árið 2020.
Merki eru um að Niemann hafi notið aðstoðar í skákmótum, meðal annars þegar peningaverðlaun voru undir. Niemann gekkst við svindlinu, að því er fram kemur í skýrslu Chess.com sem telur hvorki meira né minna en 72 blaðsíður.
Chess.com notast við sérstaka tækni við að greina svindl, sem miðar að því að bera leiki Niemann við leiki sem skáktölvur hafa reiknað út og mæla með. Ferill Niemann í raunheimum er þá einnig talinn uppfullur af rauðum flöggum eftir að hann komst í hóp elítuskákmanna.