Norsk yfirvöld fylgjast nú grannt með rússneska rannsóknarskipinu Akademik B. Petrov sem frá 27. september hefur siglt frá Murmansk í Rússlandi og niður með allri vesturströnd Noregs að Bergen sem það er í nágrenni við nú.
Grunur leikur hins vegar á að þarna sé ekkert hafrannsóknarfar á ferðinni heldur dulbúið rússneskt njósnaskip. Hefur Akademik B. Petrov lagt leið sína um tvö olíuvinnslusvæði á vegum norskra olíufyrirtækja, Åsgård og Gjøa.
„Við getum staðfest að rússneskt skip sigldi fram hjá Gjøa-borpalli á miðvikudagsmorgun með stefnu í suður. Það var í um fjögurra sjómílna fjarlægð [7,4 km] frá pallinum,“ segir Liv Jannie Omdal, upplýsingafulltrúi Neptune Energy sem er við vinnslu á Gjøa, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.
Ståle Ulriksen, lektor við norska sjóherskólann, segir við NRK að Akademik B. Petrov sé stórt skip sem minni eilítið á gamaldags farþegaskip. „Það er skráð sem rannsóknarskip en er í raun njósnaskip. Þeir eru að fylgjast með okkur,“ segir lektorinn og kveður slík njósnaskip rússnesku nágrannanna reyndar ekki óalgeng.
„Mörg rússnesk skip heita nöfnum sem innihalda „Akademik“ eða „Mekanik“. Þau sigla í sífelldu með ströndinni og varpa oft akkerum nálægt einhverjum mikilvægum mannvirkjum eða stöðvum. Akademik B. Petrov er með mun fleiri loftnet en venjuleg skip og er vel búið eftirlitsbúnaði. Það er líka með búnað til að setja hluti í sjóinn. Sem sagt mikill búnaður sem kemur sér vel við annað en rannsóknir,“ segir Ulriksen.
Viðbúnaðarstig í Noregi var hækkað eftir sprenginguna í gasleiðslunum Nord Stream 1 og 2 á mánudaginn í síðustu viku og standa nú hermenn vörð við 19 hafnir og ýmsar framleiðslustöðvar á landi, svo sem olíu og gass.
Ina Holst Pedersen Kvam, rannsakandi við sjóherskólann, bendir á að Akademik B. Petrov hafi verið á ferð úti fyrir Kalíníngrad í júní. „Í sama mánuði hófst reglulegt „viðhald“ Rússa á Nord Stream-leiðslunum sem teygði sig yfir lengri og lengri tíma. Með hliðsjón af sprengingunum núna, sem hljóta að hafa orsakast af einhverju sem var komið fyrir á leiðslunum, er þetta ekki sérlega traustvekjandi tilviljun,“ segir Kvam.