Stjórnvöld í Rússlandi hafa heitið því að vinna aftur landsvæðin sem Úkraínumenn hafa endurheimt og tilheyra úkraínsku héruðunum sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti telur sig hafa innlimað.
„Landsvæðin verða tekin til baka,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar og bætti við að héruðin „yrðu rússnesk að eilífu og verða ekki gefin til baka“.
Gagnsókn Úkraínumanna hefur gengið vonum framar á ýmsum svæðum í Úkraínu og hefur þeim tekist að endurheimta nokkurt landsvæði sem Rússar höfðu hernumið.
Yfir helgina náði úkraínski herinn bænum Líman í Dónetsk-héraðinu úr höndum rússneska hersins en hann hefur verið á valdi Rússa frá því í vor.
Dónetsk er eitt fjögurra héraða sem Pútín kveðst hafa innlimað í síðustu viku. Stjórnvöld í Evrópu hafa fordæmt innlimunina og sagt hana ólögmæta. Fram kom í morgun að Pútín hefði undirritað löggjöf um innlimunina.
„Héruðin Dónetsk, Lúgansk, Kerson og Saorisjía eru „viðurkennd sem hluti af Rússlandi í samræmi við rússnesku stjórnarskrána,“ segir í skjölum sem birt hafa verið af rússnesku ríkisstjórninni.